miðvikudagur, september 16, 2009

Þáttagláp

Eftir afspyrnu lélegt (sjónvarps)þátta sumar datt ég niður á vampíruþættina True Blood sem ég kolféll fyrir. Ég hef að vísu verið með smá kjánahroll yfir suðurríkja hreimnum sem þau tala með en það venst að mestu leyti. Svo finnst mér aðal vampíran alls ekki nógu sjarmerandi hann er frekar rindilslegur og ekkert sérstaklega glæsilegur á nokkurn máta. En en hinn stórhættulegi sænskættaði Eric er dáldið annað mál, hann einn gerir þættina þess virði að horfa á.
Sería 2 er ekki alveg jafn góð og fyrsta serían en samt alveg ágæt og endar sæmilega spennandi.

Þar sem síðasti þátturinn af True Blood var á mánudaginn var ég farin að örvænta að nú væri ekkert til að horfa á á næstunni eða þar til 24 .sept þegar Greys byrjar. En viti menn þeir í USA redda málinu með nýjum þáttum sem kallast The Vampire Diaries . Fyrsti þátturinn var frumsýndur núna 13 sept og mér líst bara ágætlega á þetta minnir dáldið á Twilight seríuna þ.e.s. ein góð vampíra sem nærist bara á dýrum, vond vampíra sem étur alla sem á vegi hans verða og svo saklausa unga munaðarlausa stúlkan og vinir hennar. Það verður vel hægt að horfa á þetta ef framhaldið
verður eins og fyrsti þátturinn.

Dálítið skondið að the Vampire Diraies eru gerðir eftir bókum frá 1991, True Blood er eftir bókum frá 2001 en Twiglight var gefin út 2005 samt byrjaði Twilght þetta Vampíru kvikmynda og sjónvarps æði. Mætti halda að framleiðendur fari nú logandi ljósi um gamlar Vampíru bókmenntir til að leita að góðu efni til að mjólka æðið.

Annars bíð ég spennt eftir að Greys byrji þar sem síðasti þáttur endaði hreint hrikalega en trailerinn fyrir nýju seríuna búin að skemma smá fyrir. Ekki má svo gleyma Despó sem byrjar aftur 27. sept. alltaf gaman að fylgjast með þeim stöllum á Whisterialane. Ég á samt örugglega eftir að sakna Edie svolítið enda einstaklega litrík og skemtileg.


miðvikudagur, september 09, 2009

Á lífi


Rétt að láta vita ég er á lífi, hef bara ekki nennt að blogga þessa dagana en lagaði linka á sjónvarpsþætti og slíkt á netinu, tók út linka sem virka ekki og bætti við nýjum í staðinn.

Það hefur verið nóg að gera eldri tveir grísirnir komnir í nýja skóla og gengur vel. Anna er enn á sínum stað með sama kennara og í upphafi svo það er allt í sómanum þar líka.

Ég virðist heldur vera að skríða saman að vísu dofin í öllum fingrum nema þumalfingrum beggja handa. Vinstri fóturinn er enn latur en samt orðin betri en var en ég ræð samt ekki við mikið meira en 600m göngu áður en fóturinn fer að neita að taka þátt, þetta getur þó verið ögn misjafnt eftir dögum í báðar áttir.
Það sem hefur háð mér mest síðustu vikur er andstyggðar raflosts tilfinning oftast frá hálsi og niður í annan eða báða handleggi, getur að vísu farið aðrar leiðir. Þegar þetta er sem verst get ég varla hallað höfðinu fram án þess að fá nett lost. Ofan í þetta bættist svo eitthvert vesen með hægri hendina, einhver undarleg straums tilfinning og þrýstingur eins og það væri verið að kremja handleggin allan í spað, lófinn krepptist eða fingurnir tóku svaðalega kippi. Kerfið fór allt í steik og ég mátti setjast eða leggjast meðan ég beið eftir að þetta gengi yfir. Þetta gekk yfir á 2-5 mínútum en hanleggurinn var óstarfhæfur í dáldinn tíma á eftir. Þetta var að þetta gerðist án viðvörunar allt í einu á hinum ýmsu tímum dags og var vægast sagt frekar hvimleitt. Eftir nokkurn tíma færði þetta sig svo yfir í vinstri handlegginn en hefur nú vonandi að mestu hætt 7.9.13.

Ég byrjaði á lyfjum við MSinu í byrjun júní og hefur það gengið eins og við var að búast. Ég er yfirleitt hundlasin með andstyggileg flensu einkenni af lyfjunum 1-2 daga í viku en svolítið misjafnt þó hversu slæmt þetta er og stundum finn ég lítið sem ekkert fyrir þessu er bara þreytt og drusluleg, sem er ekkert nýtt.

Í undirbúningnum að lyfjameðferðinni kom svo í ljós að ég er vita járnlaus á engar birgðir af járni í kerfinu og þetta orsakar svo blóðleysi. Útséð þótti að þetta myndi lagast af sjálfu sér svo nú mæti ég tvisvar í viku næstu fjórar vikurnar á St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði til að fá járn í æð. Mikið er ég nú fegin að starfsemi þess ágæta spítala var ekki flutt til Reykjanesbæjar.

Annars var fyrsta meðferðin nú pínulítið öfugsnúin þar sem ég skildi eftir dágóðan slatta af blóði á gólfi spítalans. Það var ný búið að setja upp nálina sem járnið átti að fara í og hjúkrunarfræðingurinn snýr sér við og er eitthvað að bardúsa. Ég var eins og venjulega bara eitthvað að góna út í loftið, heyrði að það datt eitthvað sem ég spekúlerðaði ekkert í því. Þegar hún snýr sér svo við aftur tekur hún undir sig stökk með hrópum og lít á hendina á mér þá hafði tappa ófétið skotist af og það náttúrlega foss blæddi úr nálinni og allt komið á flot. Þar með var búið að breyta þessari líka huggulegu dagdeildarstofu í sviðsmynd úr splatter mynd á einu augabragði.


Annars er ég bara búin að vera á fullu úti að leika mér með myndavélina. Það er hreint sálarbætandi að keyra um svæðin hér í kringum borgina, stíga út úr bílnum rölta nokkra metra og vera umkringdur af fuglasöng og fersku lofti að stunda uppáhalds áhugamálið. Ég geng nú svo sem ekki mikið en það er hægt að finna ótrúlega margt skemtilegt í góðu göngufæri frá bílastæðum á þessum leiðum. Það sem ég kem með heim og reynist nothæft ratar svo inn á flickrið jafnt og þétt.