föstudagur, nóvember 14, 2008

Skref



Ég held kanski að ég sé að uppgötva tilganginn með þessu öllu saman. Á síðustu mánuðum hef ég þurft að yfirstíga ýmsa hluti sem ég hélt að ég ætti ekki eftir og horfast í augu við þar á meðal mína eigin fordóma (ef fordóma skyldi kalla) og hluti sem ég hef óttast í gegnum tíðina. Ég er farin að sjá að það sem fyrir mann kemur í lífinu er allt gert til að þroska mann sem einstakling. Mig hefur svo sem lengi grunað þetta en þetta virðist alltaf vera að verða augljósara og augljósara.



Ég fór á fund til félagsráðgjafa MS félagsins í lok síðasta mánaðar og eitt af því sem hún hafið til málanna að leggja væri að ég fengi heimilishjálp, þar sem heimilið væri stórt og greinilega mikið álag á okkur hjónum. Það er eitt af því sem ég hef hreint aldrei getað hugsað mér að fá ókunnuga mannesku inn til mín að þrífa en þegar hún stakk upp á þessu þá hrökk uppúr mér alveg ósjálfrátt "já það væri náttúrlega bara frábært" held að þarna hafi talað sú tilfinning mín að ég er orðin til í þiggja alla þá hjálp sem ég get fengið.
Einn af einn af mínum ókostum er sá að ég á ofsalega erfitt með að þiggja hjálp ég hef óstjórnlega þörf fyrir að gera allt sjálf, núna er greinilega kominn tími til að takast á við það.



Hún sendi inn umsókn og á mánudaginn hringdi kona sem ætlaði að koma og taka út heimilið og sjá hver þörfin væri. Ég fékk nánast kvíðakast sá fyrir mér að konugreyið myndi hlaupa út grátandi eftir að hafa stigið hér inn, þar sem húsbóndinn var miðju kafi að leggja parket og allt gersamlega á hvolfi (svona meira en venjulega). Sem betur fer ætlaði hún ekki að koma fyrr en á fimtudag eða föstudag svo ég fékk gálgafrest. Guðni er enn að klára parketlögnina og þegar konan hringdi í gær og boðaði komu sína í dag féllust mér nánast hendur en ákvað samt að bíta á jaxlinn og reyna bara að gera það besta úr þessu. Ég fékk Guðna til að taka allara versta umrótið og koma því á sinn stað. Í morgun var samt allt en á hvolfi bara ekki alveg eins hrikalega og hafði verið en ég gjösamlega orkulaus reyndi samt að staulast um og redda því helsta en varð að hætta vegna skjálfta og búin að gata nýja parketið með borvél sem tók flugið úr höndunum á mér og niður stigann úr stofunni og endaði með borinn á undan í parketinu.
Konan mætti svo á staðinn um tíu leytið og ég umlaði einhverjar afsakanir um parketlagnir hún tók því nú bara vel og er væntanlega ýmsu vön. Við röltum um íbúðina og ég fékk kurteisislega ábendingu um að "þær" (væntanlega hreingerningadömurnar) vildu ekki hafa dót á gólfinu þegar þær kæmu, mér finnst það í sjálfu sér ekkert skrítið og lofaði bót og betrun áður en "þær" kæmu.

Næst kom að því að fylla út umsóknina og þá held ég að konan hafi áttað sig á að ég þyrfti aðstoð það tók mig lengri lengri tíma að skrifa og í lokin var pennin farin að skjálfa svo mikið að ég sá fram á að ég myndi sennilega skjóta hana niður með honum. Hún var að grúska í einhverjum pappírum en var greinilega farið að lengja eftir umsókninni þegar hún lítur upp,horfir á mig áttar sig svo og segir "æ heyrðu ég hefði nú getað fyllt þetta út fyrir þig ég áttaði mig bara ekki alveg á þessu". En um það leyti var hvort sem er bara eftir kaflinn sem ég varð að gera sjálf þ.e.s. að skrifa undir.

Áður en blessuð konan fór fékk ég nú samt smá pistil um að það væru nú ekki allir sem fengju svona aðstoð og sérstaklega ekki ungt fólk með maka (var búin að heyra áður í samtalinu að það væri nú ekki mikið um ungt fólk sem fengi heimilishjálp). Kallarnir gætu nú alveg tekið þetta að sér alveg eins og við gerum þegar þeir veikjast. Ég vissi svo sem ekki alveg hvernig ég átti að taka þessu, kanski meinti hún þetta bara svona almennt en kanski var þetta smá pilla ég átta mig bara ekki alveg á því enda þekki ég konuna ekkert. Velti því fyrir mér í sekúndubrot hvort ég ætti að útskýra fyrir henni að maðurin minn færi á fætur klukkan 7 við tækju einn og hálfur klukkutími í orrustu við að koma börnunum í skólann, þar er engin smá orrusta í gangi þessa dagana. Þar á eftir tæki við 9-12 tíma vinnudagur innan fyrirtækisins sem hann vinnur hjá og svo jafnvel meira eftir að hann kemur heim. Einhvern veginn tækist honum samt oft að pota inn í þann tíma nokkrum mínútum þar sem við hjálpuðumst að við að elda kvöldmatinn og stundum endaði það alfarið á honum. Einhverstaðar þarna inní væri líka tekin tími í að hjálpa til við heimanám og sinna ýmsum hlutum innan heimilisins og það þýddi að hann væri jafnvel að sinna vinnu fram á nótt. Um helgar þarf hann ansi oft að vinna og á honum hvíla alskyns verkefni út um allan bæ við að redda öllu mögulegu fyrir stórfjölskylduna. Hann kæmist sjaldnast inn fyrir dyrnar á heimilinu áður en það væri byrjað að bombardera hann með hlutum sem hinir og þessir heimilismenn þyrftu aðstoð með. Átti ég að útskýra það fyrir henni að stundum hefði ég áhyggjur af því að eignmaðurinn myndi hreinlega fara yfirum af álaginu sem er á honum nú þegar og mér fyndist hreinlega ekki meira á hann leggjandi sérstaklega miðað við allt það sem hann hefur bætt á sig eftir að ég veiktist (og það ekki af flensu sem tekur viku hálfan mánuð að jafna sig af). Ofan í það þá held ég að það að fá heimilishjálp á tveggja vikna fresti þar sem er ryksugað, skúrað, baðherbergið þrifið og þurkað af útrými ekki alveg þörfinni fyrir að við gerum þetta sjálf líka. Held að "þær" muni alfarið neita að koma hér inn ef við ætlum að láta það duga en þessi hálfsmánaðarlega aðstoð mun vissulega létta undir með okkur. Ég ákvað samt að þegja, sagði ekkert, þakkað konunni fyrir komuna og kvaddi.

6 ummæli:

jeg sagði...

Æææjjj krúttan mín. Er það semsagt niðurstaðan úr þessu öllu "MS"?

Ææjjj þetta fólk er nú ekki alltaf með fulla poka af viti svo það skilur ekki mikið. Svo eru aðstæður jú misjafnar milli heimila en það fatta heldur ekki allir. Knús og klemm úr Hrútósveitó. <3

Nafnlaus sagði...

Ég var búin að skrifa heilan helling í morgun, en það er ekki hér nú :-(
Alla vegna, þá er ég hrikalega reið fyrir þína hönd. Það er stundum eins og það sé erfiðara að berjast við fávisku fólks heldur "kerfisins" sjálfs (það er reyndar ekki til að hrópa húrra fyrir). Það er orkusuga að þurfa að vera endalaust að réttlæta af hverju manni líður "svona" en ekki "hins seginn". Mundu bara dúllan mín, þú ert sterk og þú veist betur en þessi "mann-sveskja"!

Guðný sagði...

Takk stelpur :)

Nafnlaus sagði...

*Knús* Það er nú nógu erfitt að þurfa að þiggja hjálp svo maður fái nú ekki einhvern fyrirlestur í kaupbæti! Vona að þetta létti undir samt.

Nafnlaus sagði...

"Nafnlaus" er semsagt, ég, Ólafía :)

Nafnlaus sagði...

Ég er bálvond.
Get ekki sagt neitt annað.
Dísa