sunnudagur, febrúar 29, 2004

Sumar fréttir koma mér minna á óvart en aðrar !!!

Tekið af mbl.is:
"Starfsfólk öldrunarþjónustu úrvinda í lok hvers vinnudags"

"Starfsmenn í öldrunarþjónustu eru undir miklu líkamlegu og andlegu álagi. Þetta kemur fram í rannsókn sem Vinnueftirlit ríkisins gerði en greinar upp úr henni hafa verið að birtast að undanförnu í erlendum fagtímaritum. Meðal þess sem rannsóknin leiddi í ljós var að 74% svarenda sögðu starfið líkamlega erfitt.
Sýndu niðurstöðurnar sterk tengsl á milli tiltekinna vinnuskipulagsþátta og þess að vera andlega úrvinda í lok vinnudags, þess að finnast starfið andlega erfitt og lítillar starfsánægju. Meira en helmingur starfsmanna sagðist oft eða stundum vera líkamlega eða andlega úrvinda eftir vinnuvaktirnar. Sjúkraliðar og ófaglærðir í umönnun eru þeir hópar sem töldu starfið einna erfiðast og voru helst úrvinda eftir vinnu."
"Slítandi og þögult starf

Kristinn Tómasson, yfirlæknir á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins, segir að rannsóknin hafi verið áhugaverð þar sem álagið sé mikið á starfsfólki í öldrunarþjónustu.

„Það má segja að þetta sé slítandi og þögult starf, sem ekki er mikið fjallað um.“ segir Kristinn"



Já ég var að vinna við þetta síðasliðið sumar og ég get nú ekki annað en tekið undir að þetta starf er slítandi andlega og líkamlega og veitir litla ánægju því miður. Eitt af því fyrsta sem ég tók eftir þegar ég hætti í öldruninni og fór að vinna við hjúkrun skurðsjúklinga og augnsjúklinga er að ég er ekki að drepast í bakinu á eftir og oftast ekki þreytt á sálinni eftir vaktina. Auðvitað er ég oft þreytt eftir vaktirnar á 12-E en það er af allt öðrum toga. Það er bara eðlilegt að vera þreyttur (sérstaklega í fótunum) eftir 8 - 9 tíma af stanslausum hlaupum fram og til baka út og út um allan spítala. En það er ekki eðlilegt að vera slitin upp að hnjám, búinn í bakinu með mikla og slæma vöðvabólgu í öxlunum og ofan í þetta þreyttur í sálinni líka eftir aðeins 5 tíma vinnu. Það er ekki beint leiðninlegt að vinna í öldrunarþjónustu en það er slítandi og erfitt og oft er þetta illa borgað og vanþakklátt starf líka. Ég dáist að fólki sem endist í þessu ár eftir ár og heldur sönsum. Það er sorgleg staðreynd að í öldrunarþjónustunni er þónokkuð um fólk sem er orðið útbrunnið og kalt sem á ekkert eftir til að gefa og hefur kanski aldrei átt erindi í hjúkrun af neinu tagi. Eftir að hafa kynnst þessum geira bæði sem starfsmaður og líka í gegnum það þegar amma var á dvalarheimili finnst mér ekkert sérlega spennandi tilhugsun að verða mjög fullorðin og enda á elliheimili.

Engin ummæli: