föstudagur, desember 30, 2005

Allt fyrir aurinn............

Já mikið má á sig leggja fyrir krónurnar he he he ég skellti mér í bíó í gærmorgun kl. 11 með krakkana. Þannig er mál með vexti að Sambíóin bjóða upp á sýningar fyrir aðeins 400 krónur kl. 11 á morgnana milli jóla og nýárs. Það má segja að það hafi verið fullt út úr dyrum og nóg af fólki í bíó svona snemma á virkum degi. Við fórum Harry Potter og það var nánast fullur salur þó að myndin hafi verið sýnd síðan í nóvember. Ég gat nú ekki annað en verið sátt við myndina enda fylgir hún bókinni nokkuð vel og fátt sem ég get fett fingur út í. Eina sem var að angra mig var að ég er ný búin að lesa síðustu bókina og flétturnar í henni (og bókinni) á milli voru að valda mér hugarangri og sorg sniff, sniff.

Við hjónin fundum okkur nýja aðferð til líkamsræktar í gær ég segi nú bara BootCamp hvað fnuss..... Já við eigum okkar eigin "drill sargent" hér á heimilinu sem sér til þess að eldri meðlimir heimilisins haldist í góðu formi. Þegar við hjónin héldum í gær að við værum að fara að sofa þá reyndist það hinn mesti misskilningur.
Við hjónin ætluðum að horfa á Mr & Mrs Smith áður en við færum að sofa en áður en ég fór inn upp hófst hin daglegi leikur hvar er síminn minn sem ég leik á hverju kvöldi. Leikreglurnar eru þær að ég set GSM símann minn á "MJÖG góðan" stað einhverntímann yfir daginn og svo leita ég logandi ljósi að honum áður en ég fer að sofa (nota hann sem vekjaraklukku). Í gærkvöldi reyndist hann vera ásamt fleiru af mínu dóti út í bíl og fór ég þangað út að sækja hann. Við hlunkumst inn í rúm og hefjum kvikmyndaáhorf mikið þegar langt er liðið á myndina rennur upp fyrir mér að ég hafði gleymt símanum frammi **dohhhhh**. Þar sem Guðni átti leið fram þá bað ég hann að sækja hann fyrir mig í leiðinni en þegar Guðni kemur fram er útidyrahurðin opin og enginn hundur nokkurstaðar í húsinu, hurðarófétið hafði þá kviklokast á eftir mér og fokið upp eftir að við fórum inn og Leó hafið ekki staðist freistinguna og farið á bæjarrölt. Í þetta sinn lét hann sér ekki nægja að fara út í garð og koma inn aftur nei hann lét sig hverfa eithvert út í myrkrið (við uppgötvum þetta um kl. 1:30). Úr þessu varð því að í stað þess að skríða upp í hlytt og notalegt bælið máttum við klæða okkur upp og halda út í rigninguna og rokið að leita að hundinum. Skriplandi á blautum klakanum með hjartað í hálsinum fórum við um allt hverfið (skiptum liði) og svoldið lengra og vorum að gefast upp (eftir nær klukkutíma leit) þegar ég fann hann svo hér ofar í götunni ekkert svo langt að heiman, hann hefur sennilega bara verið með banana í eyrunum rétt á meðan við vorum að kalla og blístra á hann. Eftir þessa mjög svo hressandi næturgöngu vorum við svo upptrekkt að það tók langan tíma að ná sér niður til að vera fær um að sofna.


Jæja krúttin mín ég býst ekki við að rausa neitt meira hér fyrir áramót svo ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á komandi ári. Takk fyrir alla skemtunina, kommentin og rökræðurnar á árinu sem er að líða.

Engin ummæli: