miðvikudagur, desember 03, 2003

Hæ hæ langaði til að nota tækifærið og koma smá tilkynningu á framfæri Eygló hringdi í mig í gærkvöldi og lét mig vita að það er útsala hjá henni í kvöld frá 19:00 - 20:30 í Friendtex búðinni í Síðumúla 13.
Ég ætla að reyna að komast en ég er að fara á bekkjarkvöld hjá Árna sem er frá 18 - 20 svo þetta verður naumt tímalega séð hjá mér. Ég hlakka nú dáldið til kvöldsins en það á að skreyta piparkökur og borða pitsur og þetta verður örugglega rosalega gaman.
Eins og venjulega er lítið af mér að frétta var að vinna um helgina það var bara nokkuð gaman. Enn skemmtilegra var þó í jólapartýi deildarinnar en eins og mig grunaði eru þetta upp til hópa skemmtilegustu manneskjur sem ég er að vinna með og ég var með verki í brosvöðvunum eftir kvöldið. Það skemmtilega við þetta var að ég fann ekkert fyrir því að ég þekki þær ekki mjög mikið. Þær sem ég hef unnið mest með mættu allar svo ég varð ekki svona Palli var einn í heiminum eins og stundum vill verða þegar maður er að fara í fyrstu vinnu eða einhverskonar partý í nýjum hóp. Ég fór snemma heim þar sem ég hafði verið á morgunvakt og svaf lítið fyrir hana svo ég gat ekki meira um kl. eitt eftir miðnætti. En um tvöleytið fór restin af hópnum á Gauk á Stöng þar sem ein þeirra er á sér samningi og þær komust framfyrir röðina og fengu frítt inn á Sálina. Ég verð nú að segja að ég hefði nú gjarnan viljað fara með þeim enda var víst rosalega gaman.
Þegar ég kom heim kom ég að Ásdísi þar sem hún sat upp í stofu og horfði á American Pie 2 og skemmti sér konunglega. Þetta var nú kanski ekki alveg myndin sem ég hafði hugsað mér að væri heppilegust fyrir hana en svo sem enginn stór skaði skeður. Ég spurði hana hvernig henni hefði fundist myndin og svarið var auðvitað "alveg ógeðslega skemmtileg, samt var langfyndnast þegar strákurinn límdi hendina fasta við tippið á sér og videóspólu á hina hendina" ég verð að viðurkenna að þetta er alveg ógeðslega fyndið atriði en samt er eitthvað sem angrar mig við að 10 ára gömul dóttir mín sé að horfa á það. En well ekkert við því að gera úr þessu. Ég er reyndar að uppgötva það hvað er gaman að setjast niður með dóttur minni þeirri eldri og horfa á allskonar myndir og þætti sem ekki eru alveg á barna og teiknimynda sviðinu en við höfum nú hingað til haldið okkur við að myndirnar séu leyfðar öllum aldurshópum. Ég var einmitt að furða mig á því um daginn að þegar bekkjarbróðir Ásdísar hélt upp á afmælið sitt um daginn bauð hann strákunum í bíó á Matrix Revolutions sem mér finnst nú alls ekki við hæfi 10 ára barna. Held að vísu að hún sé aðeins bönnuð innan 12 en samt hún er mjög dökk, drungaleg og svo eru nokkur atriði sem eru bara þó nokkuð ógeðsleg. Ég er svoldið hissa á að fólk skuli ver að fara með hóp af litlum strákum á þessa mynd. Kanski er ég bara svona rosalega tepruleg en ég vil að mín börn virði aldurstakmarkið á myndum. Ég sé fyrir mér að ég eigi eftir að verða svona erfið mamma eins og ein vinkona sem setti allt úr skorðum í bekk elsta sonar síns þegar hún neitaði að leyfa honum að horfa á bannaða mynd með bekkjarfélögum sínum í afmælisboði, nánar tiltekið Scary movie 2. Þetta urðu heljarinnar leiðindi því foreldarnir sem héldu afmælið voru ekki sáttir við að hún tæki ekki í mál að sonur hennar horfði á bannaðar myndir. Þessi vinkona mín var að vísu ekki með nein leiðindi hún hafði sagt syni sínum að koma bara heim þegar strákarnir færu að horfa á myndina og að hann gæti alveg verið í afmælinu fram að því. En mamman afmælisbarnsins var ekki sátt við þetta og gerði rosalegt mál úr þessu öllu og endaði á því að skila afmælisgjöfinni frá drengnum með miklum drama. Ég sé mig í þeim sporum að ef Ásdísi hefði verið boðið á Matrix hefði ég ekki leyft henni að fara og því staðið í þessum sömu sporum og vinkona mín. Mér finnst dáldið hart að þurfa að lenda í rokna leiðindum og hasar af því að maður er að reyna að kenna börnunum sínum ákveðin gildi og að virða reglur. Ég er eiginlega svoldið stolt af þessari vinkonum minni fyrir að halda fast í sínar skoðanir og uppeldisgildi en láta ekki undan hópþrýstingnum eins og manni hættir svo oft til að gera. Það er svo freistandi að falla fyrir setningunni EN ALLIR HINIR FÁ AÐ ....

Engin ummæli: