laugardagur, febrúar 26, 2005

Óskarinn
Já nú er óskarinn alveg að bresta á og í tilefni af því voru einhverjir sem tóku saman lista yfir þær myndir sem síst áttu óskarinn skilið í gegnum tíðina. Listinn er víst svona:

1. Braveheart (1995)

2. A Beautiful Mind (2001)

3. The Greatest Show On Earth (1952)

4. Ordinary People (1980)

5. Forrest Gump (1994)

6. Terms Of Endearment (1983)

7. Around the World In 80 Days (1956)

8. Cavalcade (1933)

9. Rocky (1976)

10. How Green Was My Valley (1941)

Ekki hef ég nú séð nema 4 myndir á þessum lista og er ég alveg ofsalega ósammála að Braveheart hafi ekki átt óskarinn skilið. Mér fannst Braveheart bara hin besta ræma og ekkert út á hana að setja og hana nú. Hvað þá Forrest Gump það var bara snilldar mynd og mjög vel gerð og átti óskarinn meira en skilið. Er meira sammála þessu með Beutiful mind og Rocky það að fátt við þær myndir sem gerir þær að óskarverðlauna efni finnst mér.

Hjá mér myndi listinn yfir þær mydnir sem ekki áttu óskarinn skilið líta einhvernveginn svona út:

1. THE ENGLISH PATIENT (1996) (Fargo átti að fá verðlaunin þetta ár!!!)
2. ROCKY (1976)
3. AMERICAN BEAUTY (1999) (Bæði Sixth sense og Green Mile áttu þetta meira skilið)
4. A Beutiful mind (2001)
5. Deer Hunter (1978)
6. Annie Hall (1977)
7. Platoon (1986) (A room with a wiew átti að fá þau þetta árið eða jafnvel Children of a lesser god)

Ég næ nú ekki nema upp í 7 þar sem ég treysti mér ekki til að dæma um myndir sem fengu óskarinn fyrir mitt minni og hana nú. Annars er myndin í fysta sætinu hjá mér mynd sem ég bara get ekki skilið hvernig hún gat fengið óskarsverðlaun. Þetta er hund hund hundleiðinleg langloka og ekkert spes við leikinn né neitt annað í henni myndin er aðallega heimskulega leiðinleg. Það er líka dáldið svindl að sum ár eru einfaldlega sterkari en önnur í kvikmyndaframleiðslu þannig að myndir sem ekki eru neitt spes fá verðlaun því þær voru það skásta það árið annarsvegar og hinsvegar eru svo þrjár eða fleiri rosalega góðar sem keppa næsta ár. Til dæmis 1989 kepptu Driving miss Daisy, Born on the Fourth of July, Dead Poets Society, Field of Dreams, My Left Foot um óskarinn. Skil reyndar ekki hvernig Field of Dreams komst þarna inn arfaslök mynd en so be it. Hinar eru allar mjög góðar og vel gerðar myndir sem allar hefðu átt óskarinn skilið. Þá er það árið 1996 sem leit svona út í tilnefnnigunum The English patient, Fargo, Jerry Maguire, Secrets and Lies, Shine
þarna er bara ein mynd sem er alvöru verðlauna efni og það er Fargo ég skil ekki enn afhverju hún vann ekki, ég held að verðlaunanefndin hafi verið á einhverju trippi þetta árið. Huggun harmi gegn að aðalleikonan í Fargo fékk óskarin fyrir bestu leikkonuna.
Annars hef ég nú ekki séð eina einustu mynd sem er tilnefnd í ár er nánast alveg hætt að fara í bíó **SVEKK**SVEKK**
Ógeðsdrykkurinn

Ég er búin að komast að því að manni verður bumbult af ógeðsdrykkjum sem innihalda mikið magn af hvítlauk. Ég get nú kanski sjálfri mér um kennt að því leyti að ég borðaði víst ekkert fyrri hluta dags vegna lystarleysis, svældi bara í mig tei með fjallagrösum, hvítlauk, hunangi og sítrónusafa og ó boj ó boj hvað maginn minn var ósáttur. Mæli með því að fólk borði eithvað ef það ætlar að láta svona sull ofan í sig annars bræðir maður bara úr maganum líka. Ég ætla að bíða með meiri ógeðsdrykkjar drykkju þangað tíl á morgun en þá bætist sennilega engifer saman við fyrri blönduna.
Horfði mér til ánægju á Idolið í kvöld uppáhöldin mín 2 komust áfram svo ég get ekki annað en verið sátt.
Pirringur vikunnar er samt sem áður út í stöð 2 ég verð eiginlega að játa að mig langar svoldið að hringja í þá og skammast. Gallinn er bara sá að ég veit að það þýðir nákvæmlega ekki neitt, það eru bara einhverjir sakleysingjar á símanum sem verða fyrir því að hlusta á skammirnar og svo gerist ekkert meira. Það sem er að pirra mig er að við borgum hátt í 5000 kr. á mánuði fyrir áskrift að stöð 2, gott og blessa mér finnst þetta dáldið dýrt en mig langar ekki að vera án Idolsins, Joey, The 4400 og Nip/Tuck, ég er meira að segja að læra að horfa á 24. Það sem er að fara alveg gífurlega í taugarnar á mér er að dagskrárstjórnendum Stöðvar 2 finnst ekkert athugavert við að bjóða okkur áskrifendum stöðvarinnar upp á auglýsingar í miðjum þáttum. Það gjörsamlega rýkur út um eyrun á mér í hvert sinn sem þetta gerist t.d. inn í miðjum Joey auglýsingar **BRJÁL***. Ég sætti mig við allar auglýsingarnar sem koma á 5 - 10 mínútna fresti inn í þætti á Skjá einum enda borga ég ekki krónu fyrir dagskrána þar. En ég er að borga fyrir áskrift að Stöð 2 og mér finnst því óafsakanlegt að þeir séu að troða auglýsingum inn í dagskrárliðina. Ekki nóg með það þá er auglýsinga flóðið á milli dagskrárliða orðið svo mikið að þættirnir eru sjaldnast á tíma lengur heldur 5 mínútum eða meira á eftir áætlun. Að maður láti bjóða sér upp á þetta er ótrúlegt en ástæðan er sennilega sú að forsvarsmönnum stöðvarinnar er alveg sama þó að áskrifendurnir þeirra kvarti þeir nebblilega svara ekki kvörtunum. Ég veit um nokkur tilfelli þar sem fólk hefur sent stöðinni póst og hringt inn með kvartanir og ekki fengið neitt meira en svona er þetta bara og ef þér líkar þetta ekki þá það, ef þeir á annað borð leggja sig niður við að svara en það er nefnilega ekkert sjálfgefið að þeir geri það. Ef fólk kvartar undan einhverju við RÚV þá fær það yfirleitt einhverja netta útskýringu eða afsökunarbeiðni þannig ber undir maður hefði haldið að þetta væri akkúrat öfugt en nei, skondið ekki satt. Svo er annað við Stöð 2 sem er líka að pirra mig eða meira svona Digital Ísland pirringur mikil rosalega svakaleg ömurleg afturför er þetta Digital ísland dæmi það er sko ekki eitt heldur allt við það dæmi sem pirrar mig og hana nú. En þó stendur tvennt upp úr það er að alltaf þegar Simpsons er á kvöldin þá birtist á skjánum Smartcard wrong inserted á skjánum oftar en ekki þarf að slökkva á myndlyklinum til að losna við þessa villu meldingu af skjánum. Þetta gerist alltaf á svipuðum tíma á kvöldin milli 19:30 og 20:00 krakkarnir alltaf jafn pirraðir hlaupandi upp í stofu til að redda málinu. Þessi skemtilega villumelding kemur svo reyndar óþarflega oft á öðrum tímum ásamt No Accsess villunni, mér finnst þetta smartcard ferkar stupid ég verð að segja það. Annað sem er gífurleg afturför er að það er bara ein útsendingar tíðni á fjarstýringunum að myndlyklunum svo það er ekki hægt að fletta milli stöðva með fjarstýringu á örðrum myndlyklinum í einu. Þetta gerir það að verkum að það er aldrei hægt að nota þessar árans fjarstýringu að Digital lyklunum því sama hvað maður gerir þá fiktar maður bæði í stöð 2 og Stöð 2 bíó og það hefur mjög alvarlega afleiðingar á þessu heimili að fikta í hinni heilögu Stöð 2 bíó þegar aldursforsetinn hér er að horfa á hana. Ég ætla ekki að lýsa nánar hér hremmingum þeim sem ég hef lent í þegar ég hef álpast til að snerta frjarstýringar rassgatið. Það voru ekki eins fjarstýringar að gömlu myndlyklunum og því gat maður skipt milli stöðva á öðrum myndlyklinum alveg án þess að setja heimilið á hliðina, þetta nýja fyrirkomulag er alveg glatað. Þetta er ekki tæmandi listi yfir það sem pirra mig við Digital Ísland og Stöð 2 bara rétt svona toppurinn á ísjakanum. **PIRR**PIRR**PIRR**PIRR**ARGH**

föstudagur, febrúar 25, 2005

Svindl

Ég er lasin aftur og mér finnst það ógeðslega mikið svindl ! Kvef, 38 - 39 stiga hiti og höfuðverkur eru heldur betur að hrjá mig einu sinni einu sinni enn og nú er nóg komið. Ég þrælaði í mig í gær sítrónutei með 2 hvítllauksrifjum og sítrónusafa. Í dag er meiningin að koma niður fleiri svona bollum og hrekja pestina út, versta er að það verður ekki líft nálægt mér vegna hvítlaukslyktar. Einhverstaðar í húsráðalyfjunum við pestum er líka fjallagrasate og það er á dagskránni að þræla því niður líka en þá segi ég nú bara eins og börnin .... Það er bara svo ógeðslega vont.... En með illu skal illt út reka svo fjallagrösin skulu niður og hana nú. En upp á móti kemur að suðusúkkulaði og 70% súkkulaði á að vera gott við kvefi líka svo þá er bara að láta sig hafa fjallagrösin og japla svo á súkkulaðinu á eftir til að ná burtu bragðinu nammmmmmmm Gott að hafa afsökun fyrir óhóflegu súkkulaði áti he he he
Ásdís er komin til Danmerkur að heimsækja pabba sinn..... mikið öfunda ég hana af því að eiga svona pabba í útlöndum sem hún getur farið að heimsækja. Ásdís er líka svo stálheppin að eiga góða Ömmu sem býður henni í ferðir út að heimsækja pabba, þvílíkur lúxus að eiga svona góða að :)
Æ ég held ég veriði að skríða upp í rúm með ógeðsdrykkinn minn ....... over and out.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Krakkarnir voru að fá einkunirnar sínar fyrir haustið

Ég stenst ekki að monta mig dáldið mikið af þessum gullmolum mínum.

Árni Gunnar einkunn
Lestur 8
Skrift og Frágangur 6
Stærðfræði 8,5
Stundvísi A
Hegðun A
Vinnusemi A
Mætir með námsgögn A
Heimanám A


Ásdís Lilja
Lestur 8,5
Skrift og frágangur 8
Íslenska 8
Stærðfræði 6
Íslandssaga 9
Handment 9
Íþróttir 8,5
Myndment 9
Smíði 9
Tónment A

Stundvísi A
Hegðun A
Vinnusemi A
Mætir með námsgögn A
Heimanám A

Ásdís þarf auka aðstoð við stærðfræðina og er það í vinnslu. Árni þarf að vanda sig við skriftina en hann skrifar fullkomlega í skriftarbókina sína en svo vandast málið þegar hann er að skrifa annarstaðar. Honum liggur einfaldlega of mikið á nú á að taka hann í gegn með það :)
Give me one reason....

This youthful heart can love you
And give you what you need
This youthful heart can love you
And give you what you need
But I'm too old to go chasing you around
Wasting my precious energy.


Jibbí jibbbí ég var að fá póst frá amazon.com sem tilkynnti mér að diskarnir væru lagðir af stað til mín. Kanski ná þeir hingað áður en ég fer upp í bústað svo ég get plantað mér fyrir framan imbann og upplifað dýrðina. Hmm hvað ætli svona póstur sé lengi frá Bretlandi hmmmmmm..........
Annars er ekkert gáfulegt að frétta af mér allt frekar meinhægt og nett. Ég fór í leikhús á laugardagskvöldið að sjá Vodkakúrinn, ég grét næstum því úr hlátri yfir þessum ósköpum. Ég hitti konu sem um daginn sem sagði að sér hefði fundist þetta ágætt stykki en tóninn var einhvernveginn þannig að úr honum mátti lesa að þetta hefði verið minna en ágætt. Held kanski að hún hafi bara ekki haft vaxtarlagið í að skilja leikritið til fulls. Heimur fitubollunar er minn heimur svo þetta hitti alveg í mark hjá mér. Sumt þekkti ég úr eigin fari og annð þekkti ég frá fólki sem ég hef hitt á förnum vegi, að vísu var þetta auðvitað dáldið ýkt mynd en engu að síður sorglega nálægt sannleikanum stundum.
Svo ég haldi mig á fitubollunótunum rakst ég á blogg fyrrum kunningjakonu minnar fyrir algera slysni í fyrradag og las það af áfergju. Hún kallar bloggið
  • fyrrverandifitubolla.blogspot.com
  • og stendur það alveg undir nafni. Ég þekkti þessa stórskemtilegu stúlku (Lilju) fyrir hart nær 18 árum síðan. Við unnum báðar sumarlangt í eldhúsinu á Borgarspítalanum sem þá var og hét (þið trúið ekki hvað það spruttu fram mörg grá hár þegar ég fattaði að það eru 18 ár síðan). Hún er 2 árum eldri en ég og var komin með bílpróf og alles á þessum tíma. Ég var svo heppin að ég fékk stundum að fljóta með henni og vinkonu hennar í bæjarferðir og vídeógláp og annað slíkt. Þetta voru sko engar smá skemtiferðir því Lilja þessi er alveg óborganleg skemtileg manneskja, ég endaði yfirleitt með magaverk úr hlátri eftir þessar ferðir enda uppátækin stórkosleg í alla staði. Ég get nú samt ekki sagt annað en mér hafi brugðið smá þegar ég sá hve fitubolu syndromið hafði gengð nærri henni um tíma ég varð eigilega alveg miður mín, því þetta var nú alls ekki feitlagin stelpa þegar ég þekkti hana hér í denn. Bloggið góða rekur baráttu hennar við offítupúkann og allt sem honum fylgir. Ég veit nú ekki aðferðin sem hentaði henni sé neitt sem ég get notað, ég sé bara ekki fyrir mér að ég lifi það af að borða egg og beikon í morgunmat. Engu að síður þá fannst mér einstaklega gagnlegt að lesa bloggið því það gefur manni von um að einhverntímann takist manni kanski að hrista af sér spikið. Málið er nefnilega að hún er búin að ná takmarks þyngdinni sinni og rúmlega það en þetta gekk ekki alveg eins og í sögu frá fyrsta degi og mér finnst það gefa mér svo gott veganesti í mína baráttu við púkan ljóta. Að vita að það er hægt að hrasa af beinu og breiðu brautinni án þess að það þýði að allt sé tapað er rosalega upplífgandi. Málið er einfaldlega að taka sig upp á hnakkadrambinu og gera betur á morgun og ef það hefst ekki þá er alltaf til dagurinn eftir það. Þannig hefst þetta fyrir rest :) Reyndar finnst mér að hún sé full upptekin af grammafjölda per dag kanski er það það sem þarf en ég held að ég myndi aldrei nenna að hafa áhyggjur að 100gr milli daga, lífið er bara of stutt til þess. Nú langar mig svo bara að vita galdurinn við að halda spikinu í skefjum eftir að maður hefur skafið það af því það virðist vera fólki jafnvel erfiðara en að ná spikinu af í upphafi :S

    föstudagur, febrúar 11, 2005

    Við erum í vetrarfríi
    Öll fjölskyldan er samankominn heima í vetrarfríi skólar og leikskólar Garðabæjar eru lokaðir. Guðni tók sér frí í vinnunni svo við erum að hugsa um að nýta daginn fara í bíó og út að borða með allann skarann.

    fimmtudagur, febrúar 10, 2005

    Fiðurfé

    Ég get ekki hætt að dást að henni Herborgu hanamömmu í Kópavoginum. Ég var að lesa viðtal við hana í DV í gær, ég hef svo sem löngu vitað að konan væri skemtileg en hvað hún er frábærlega orðheppin vissi ég ekki. Hún hefur núna brillerað í hverju viðtalinu á fætur öðru í öllum helstu miðlum landsins. Mér finnst hanamálið allt hið skemtilegasta og sé að ég hef misst af miklu að hafa ekki fengið mér hænur haldiði að það væri ekki fín búbót hér í Garðabæinn 3 hænur á vappi í garðinum, ég sé þetta alveg í hillingum.
    Ég held að heilsufarið á bænum sé eithvað að skána 7 9 13 ég er skárri og næstum hitalaus, Anna hleypur um allt þvílíkt kát, Ásdís er enn dáldið lasarusaleg föl og guggin með kvef en samt skárri. Meðalastríðið við Önnu er enn í fullum gangi en versta mótstaðan hefur samt verið brotin á bak aftur. Mér tókst í fyrsta skipti í dag að gefa henni meðalið án þess að hún grenjaði í hálftíma, frussaði og fojaði. Lykillin en að mylja töflurnar setja góða skólajógurt í skeið bæta mulningnum ofaná og fela hann svo með meira jógúrti. Hafa tilbúið fullt glas af mjólk og loforð um að fá að fara á Barbie síðuna eða hafa íspinna á borðinu sem Anna má fá ef hún er dugleg að taka töfluna. Þetta er búið að ná mótþróatimanum niður í 2 mínútur og grát tíminn er nánast alveg búinn. Vona bara að þetta haldi áfram á þessari braut.

    Arr ég var að tékka á Amazon.com og þeir eiga von á að senda pakkan minn af stað 17 febrúar, ég get ekki beðið svo lengi : s
    Við fjölskyldan erum að fara í sumarbústað með vinahópnum 18 þessa mánaðar við erum farin að hlakka dáldið til. Við höfum ekki farið í bústað síðan í sumar svo það er sko alveg kominn tími til að skella sér. Við eigum enn eftir að leysa hvað við gerum við Leó á meðan annað hvort er það Hundahótel eða við biðjum Pabba að setja hann út í spotta amk. 2svar á dag þessa daga sem við verðum að heiman og gefa honum að borða og klappa smá líka, ég veit ekki hvort pabbi nennir þessu en vonandi.
    Ég fór í vinnuna í gærkvöldi mikið óskaplega var gott að komast þangað aftur. Ég var hreinlega farin að sakna vinnufélaganna og vinnunar sem slíkrar, ég hélt að ég ætti nú aldrei eftir að segja þetta en svona er þetta nú bara samt. Ótrúlegt hvað er gaman að vinna þegar maður er að vinna með skemtilegu fólki á góðum stað.

    miðvikudagur, febrúar 09, 2005

    NOSTALGÍAN

    'Listen very carefully, I shall say zis only once...

    Ég var að panta mér DVD á netinu áðan sem ég ætti að fá senda eftir 1 - 2 vikur nú er ég svo spennt að ég............. get ekki setið kyrr, hvernig geturðu setið kyrr.. **slap** slakaðu á kona !! He he þetta er nú kanski ekki alveg svona slæmt en næstum því. Ég fann eftir margra ára leit þætti sem sýndir voru í sjónvarpinu þegar ég var smá sennilega þegar ég hef verið á aldrinum 8 - 10 ára. Ég man enn eftir loka atriðinu í síðasta þættinum í síðustu seríunni. En þessi lokaþáttur var sýndur i júní 1982 það man ég vegna þess að ég horfði á hann á stigapallinum á Landakoti í vikunni eftir að ég fór í aðgerðina góðu. Ég betlaði það út úr hjúkrunarfólkinu að keyra mig í rúminu fram á stigapall svo ég gæti horft á þáttinn því ég gat ekki hugsað mér að missa af síðasta þættinum. Þá var sko ekki búið að finna upp endalausar endursýningar eins og tíðkast núna. Ég man enn hvað var erfitt að haldast vakandi því ég var enn syfðjuð eftir svæfinguna en ég var syfjuð í 3 eða 4 daga eftir þessa eðal aðgerð, fyrir utan að ég var nánast alveg útafliggjandi í rúminu, það var nefnilega svo vont að láta hækka mikið undir höfuðið þarna fyrst eftir að ég var skorin, sem gerði erfiðara að horfa á sjónvapið og haldast vakandi. En með hörkunni hafðist að horfa á þáttinn enda ýkt spennandi þáttur.
    Þessir eðal þættir gerast á litlu kaffi húsi í smá bæ í Belgíu seinni heimstyrjöldinni. Í aðalhlutverkum eru kaffihúsaeigandinn, hjákonan hans sem er líka þjónustustúlka á kaffihúsinu, kona í andspyrnuhreyfingunni, vondi Gestapó kallinn og niðurskotnir breskir flugmenn svo eithvað sé nú nefnt. Eftir þessa lesningu haldi þið náttúrlega að ég sé að tala um hina dásamlegu og hreint yfirgengilega frábæru seríu Allo Allo en nei ekki aldeilis. Allo Allo er nefnilega skopstæling á gömlu uppáhalds þáttunum mínum sem ég hef fram að þessu ekki vitað nafnið á. Mér hefur alltaf reglulega síðast liðin 20 ár orðið hugsað til þessara þátta og langað til að sjá þá aftur og af því að netið er ein frábærasta uppfinning nútímans, ég skil ekki hvernig ég gat lifað áður en netið kom til sögunnar, þá kíkti ég á netið og fann á endanum Allo allo síðu sem gat sagt mér nafið á upphaflegu seríunni en hún heitir Secret Army. Næsta skref var auðvitað að fara á Amazon.com og athuga hvort þessir þættir væru til og auðvitað voru þeir til á DVD (komu út síðastliðið sumar) ég var nú ekki lengi að panta disk með fyrstu seríunni. Ég stóðst nú ekki að panta líka disk með fyrstu tveimur seríunum af Allo Allo, það var bara ekki annað hægt. Það er samt fyndið hvað þessi kaup valda mér mikilli spennu og hræðslu í einu. Spennan stafar af tilhlökkun til að sjá þessa upprunalegu þætti eftir 20 ára hlé hins vegar er ég líka skíthrædd um að þeir verði svo ekki eins skemtilegir og spennandi að sjá þá núna og þeir voru þarna þá gömlu góðu. Kröfurnar voru svo mikið minni þá úrvalið af sjónvarpsefni var nú ekki beysið ekkert sjónvarp á fimtudögum og ekkert sjónvarp í heilan mánuð á sumri. Barnaefni var af ótrúlega skornum skamti stöku þáttur af línunni og tomma og jenna að ógleymdri Stundinni okkar á sunnudögum, ekki það að Secret Army hafi verið eithvert barnaefni síður en svo það var bar ekki búið að finna upp rauðu og gulu merkin sem nú eru á ferðinni. En allavega ég var að lesa á netinu að þessir þættir hefðu orðið alveg gríðarlega vinsælir í Bretlandi á sínum tíma og því voru framleiddar 3 seríur af þeim og sú staðreynd að Allo allo sprauttu út frá þeim gefa mér þann vonar neista að þættirnir séu kanski næstum því eins góðir og minningin segir til um.
    En núna er mér sennilega hollast að hypja mig í háttin því ég ætla að gera heiðarlega tilraun til að fara í vinnuna á morgun. Ég er að vísu engan veginn orðin góð af kinnholubólgunni og ekki alveg hitalaus heldur en nú er bara nóg komið af þvi að væflast heima ég þoli ekki meir. Ég reyini bara að hrista ekki höfuðið, stíga varlega til jarðar og tala ekki mjög hátt þá slepp ég sennilega án slæmra verkja.

  • Hér
  • finni þið svo hljóðdæmi úr Allo Allo ég fæ algeran nostalgíufiðring af upphafslaginu. It makes me feel all warm and fussy inside.

    Auf wiedersehen eða ætti maður kanski ferkar að segja Au revoir



    þriðjudagur, febrúar 08, 2005

    Já margt er skondið í henni veröld

    Fann þessa líka óborganlegu frétt á Ananova.com og ákvað að láta hana fljóta með hér.
    Zoo tempts gay penguins to go straight

    A German zoo has imported four female penguins from Sweden in an effort to tempt its gay penguins to go straight.
    The four Swedish females were dispatched to the Bremerhaven Zoo in Bremen after it was found that three of the zoo's five penguin pairs were homosexual.
    Keepers at the zoo ordered DNA tests to be carried out on the penguins after they had been mating for years without producing any chicks.
    It was only then they realised that six of the birds were living in homosexual partnerships.
    Director Heike Kueck said that the zoo hoped to see some baby penguins in the coming months.
    She said that the birds had been mating for years and one couple even adopted a stone that they protected like an egg.
    Kueck said that the project has the support of the European Endangered Species Programme because the penguins, which are native to South America, are an endangered species.
    A biologist will be on hand to monitor the experiment.

    But introducing the Bremerhaven penguins to their new Swedish friends may not be as successful as hoped after earlier experiments revealed great difficulties in separating homosexual couples.
    In case they show no interest, the zoo has also flown in two new male penguins "so that the ladies don't miss out altogether", Kueck added.


    Mér finst sagan af parinu sem "ættleiddi" steininn eithvað svo óborganlega krúttleg

    Svo fyrir ykkur sem hafið gaman af svona skondnum sögum úr henni veröld kíkið á þetta
  • Ananova.com...Tvíburar???

  • Hvað eiga Guðný og Gandhi sameiginlegt

    Ég tók þetta fína próf á netinu sem á að staðsetja mig í pólitíkinni og viti menn í ljós kom að ég er frjálslynd vinstri manneskja. Þetta kom mér ekki mikið á óvart. En á grafinu sem gefið var upp mér til viðmiðurnar kom í ljós að ég er í félagsskap ekki ómerkilegri manna en Nelson Mandela, Dalai Lama og Ghandi ekki amalegt það.
    Hér fyrir neðan sjái þið þessar fínu niðurstöður og viðmiðunarmyndirnar.
    .
    .
    .

    Prófið góða má svo finna hér:
  • Próf

  • mánudagur, febrúar 07, 2005

    Hey Kanína komdí flensu....
    Ástandið hér er ekki vel skemtilegt mér sló niður af flensunni, Ásdís er með hita og hálsbólgu og Anna er búin að bæta streptókokkum við flensuna og eyrnabólguna.
    Ég get sennilega kennt sjálfri mér um hverinig komið er fyrir mér. Ég ákvað það á fimmtudaginn að mér væri að batna og dreif mig út til að kaupa afmælisgjöf handa Ásdísi og hráefni í 12 ára afmælispartý. Eftir þessa ferð var mér nokkuð ljóst að ég væri nú ekki alveg búin að ná fyrri styrk. Fór heim settist niður í klukkutíma og hófst svo handa við að grafa heimilið upp úr draslinu sem safnast hafði upp var að því fram eftir kvöldi. Á föstudagsmorguni hélt ég svo áfram að skreyta og skafa burtu skít svo stúlkurnar 10 myndu ekki hverfa að eilífu í draslinu. Haldin var þessi líka ljómandi afmælisveisla sem varð að singstarpartýi sem vakti það mikla lukku að klukkan fimm þegar afmælið var formlega búið tilkynntu stelpurnar að þær langaði ekki heim strax. Ég ætla að leyfa mér að giska á að það sé vel heppnað partý. Ég settist svo niður og horfði á Idolið og ætlaði svo að fara að sofa þar sem mín beið það skemtilega verkefni að vera mætt með Árna á Handboltamót inn í Kópavog kl. 8:20 stundvíslega. En vesalings Anna var eithvað svo ómöguleg um nóttina að ég náði nú ekki nema klukkutíma eða einum og hálfum í svefn og hann fór í martröð uppu úr nýju auglýsingunum frá Umferðarstofu : s Ég spratt nú samt á fætur kl. 7 dreif mig út með hamar og meitil að losa bílinn úr klakabrynjunni sem yfir honum lá. Hann var ekki orðin þiðinn kl. 8 þegar við lögðum af stað hurðin bílstjóra meginn neitaði alfarið að lokast og þurfit ég að halda við hana alla leið inn í kópavog. Árni mætti galvaskur fyrstur í sínu liði ........tóku þið efitr þessu .........við vorum fyrst !!!!! Ekki síðust og seinust eins og þessi fjölskylda hefur nú stundum verið þekkt fyrir nei FYRST. Stuttu á eftir okkur mættu svo Una og Friðrik með Grétar Áka sem keppir með HK svo þetta voru heljar skemtilegir endurfundir hjá drengjunum. Árni fékk úthlutað búningi frá stjörnunni og hann var heppinn hvað hann er grannur því búningarnir vour nú ekki upp á sitt stærsta né víðasta. Flest liðin þarna voru í svo stórum búningum að bolirnir minntu meira á tjöld en boli og fótleggirnir urðu að algerum spóaleggjum niður undan bolnum og hólkvíðum stuttbuxunum. En ekki Stjarnan búningurinn passaði akkúrat á Árna en á nokkrum hinna drengjanna var hann alveg á mörkunum að sleppa full þröngur á suma og ansi stuttur á aðra. Árni er greinilega heppinn hann er í staðlaðri 8 ára stærð. Þetta var nú hin mesta skemtun hópurinn hanns Árni lék fjóra leiki frá kl. 8 - 12 og þó þeir hafi nú ekki unnið neinn þeirra gerði það ekkert til þvi það var mjög gaman hjá þeim. Mér fannst líka frábært að fylgjast með þjálfaranum sem hafði nú meira en nóg að gera. Sumir héldu að þeir væru í sínum einka bolta og neituðu alveg að gefa boltan á aðra, aðrir skildu engan vegin að þeir áttu að halda sig á þeim stað sem þeim var úthlutað og stundum var stórt gat í vörninni miðjunni því liðið var allt komið út í annað hornið osvf. En þar sem handboltareglurnar eru nú ekki teknar of hátíðlega og það er greinilegt að þessi mót eru haldin til að hafa gaman af þeim þá var þetta allt leyst í friði og spekt. Það sem mér fannst stór plús við þjálfarann að hann fann eithvað til að hrósa öllum strákunum fyrir (hverjum og einum)í hverjum leik. Í síðasta leiknum þeirra gerðist svo hið ótrúlega allt það sem þjálfarinn var búin að vera að garga frá hliðarlínunni allan morguninn skilaði sér í seinni hálfleiknum og þeir fóru að spila saman og náðu sér úr bullandi tapi, þeir voru 5 mörkum undir, í að klára með jafntefli.
    Ég uppgötvaði það á heimleiðinin að ég væri ekki alveg upp á mitt besta kinnholurnar voru farnar að kvarta. Ég ákvað nú samt að sjá til og fara heim og leggja mig og athuga hvort mér myndi ekki bara batna af því. Eftir fjögurra tíma svefn var hitinn kominn upp fyrir 38 gráðurnar og orðið sárt að ganga vegna verkja í kinnholunum. Ég dreif mig því upp á læknavakt og er komin með penicilín og nefúða til að berjast við óþverrann.
    Seinni partinn á sunnudag gáfumst við svo upp á að koma mixtúrunni ofan í Önnu, henni var ekkert að batna pestinn hitinn enn þá hár og hún ósköp lufsuleg sofnandi á hinum skrítnustu stöðum svo sem stiganum upp í stofu og stofugólfinu. Slagsmálin um mixtúruna enduðu bara með því að hún gubbaði henni upp aftur. Guðni dreif sig því með hana á læknis og fékk handa henni töflur. Læknirinn kíkti á hana og sá að streptókokka hálsbólga hafði bæst í safnið hjá henni. Hún fékk því viðeigandi meðal við því og recept upp á backup plan ef töflurnar klikka. Ég verð að játa að það urðu mér talsverð vonbrigði hvað urðu mikil slagsmál að koma töflunum í barnið því líkt og annað eins. Hún er ekki hrifin af lyfjum litla sílið. En taflan fór niður og er þar enn en ég þarf að fara að hefja ný slagsmál............ Úff tvisvar á dag í viku ARGH...............

    föstudagur, febrúar 04, 2005

    Ég er lítið lasið skrímsli

    Ég er lítð lasið skrímsli
    og mig langar ekkert út.
    Hornin mín eru völt og veik
    og mig vantar snýtuklút.

    Skrímsli eru eins og krakkar
    ósköp vesæl ef þau næla sér í kvef.
    Hver er hræddur við skrímsli sem
    er hóstandi og með stíflað nef.

    Anna blessunin er bara hundlasin greyið, hún er með 39.5 stiga hita og ósköp lasin. Liggur að mestu fyrir og horfir á barnaefni, það er nú ekki hægt að saka hana um geðvonsku barnið. Hún tekur pestinni með mesta jafnaðargeði það sama er ekki hægt að segja um það þegar hún á að taka penecilinmixtúruna sína. Til að koma mixtúrinni í hana þarf slagsmál og megninu er frussað út aftur. Ég hef að vísu fulla samúð með þessu en ég man enn eftir ógeðslegu bleiku mixtúrunni sem ég fékk við blöðrubólgunni þegar ég var á svipuðum aldri. Ég var meira og minna á þessari ógeðs mixtúru á þessum árum. Ég man líka daginn sem ég fékk mixtúruna í síðasta sinn. Ég var að sækja flöskuna inn í ísskáp og hún rann úr höndum mér og niður á gólf (eitt þetta týpiska atriði þegar maður ætlar að hjálpa og það fer i vaskinn). Flaskan brotnaði og ljósbleikt innihaldið dreifðist um eldhúsið. Móðir mín var nú ekki ánægð með afrekið sem er kanski ekkert skrítið þetta var sykursull með ógeðslegri penecilin lykt í bland við einhverja sæta vemmilega lykt. Sullið var svo í ofanálag óhóflega klístrað og leiðinlegt í þrifum OJJJ. Mamma skeiðaði svo til læknis að fá nýja mixtúru en kom aftur með töflur í staðinn, mikið varð ég glöð. Ég hætti alveg að vera leið yfir þvi að hafa misst flöskuna og óskaði þess helst að ég hefði bara gert þetta fyrr. Mér dettur mixtúru ófétið í hug í hvert sinn sem ég þarf að troða svona mixtúru ógeði í börnin mín.

    miðvikudagur, febrúar 02, 2005

    It´s a hard life ....

    This is a tricky situation
    I’ve only got myself to blame
    It’s just a simple fact of life
    It can happen to anyone

    You win - you lose
    It’s a chance you have to take..................

    Já pestin lætur ekki að sér hæða Anna er komin með sýkingu í augun þegar hún vaknaði í morgun voru augnlokin límd aftur. Hún var að vísu ekki mikið að kvarta nuddaði augun og tilkynnti mér að það væri sandur í augunum. Árni Eyþór mokaði sandi í augun á mér í leikskólanum tilkynnti hún mér alvarlega á svip. Ég held nú samt að Árni greyið sé nú alveg blásaklaus af sýkingunni held að þetta sé nú meira svona kvefbakteríur sem hafa nuddast upp í augun. Þegar líða tók á daginn fór mín svo að toga í eyrað og kvarta undan að hún meiddi sig í eyranu svo það er greinilega komin eyrnabólga af stað líka. Þetta passar fínt Ásdís er líka búin að vera að kvarta undan eyranu svo nú er ljóst að kl. 17 verð ég með stelpu skottin mín 2 á læknavaktinni að leita lausnar á bólgnum eyrum og augum. Þegar því er lokið þarf ég að finna stað sem ég get keypt mat og lyf í einu svo það sé til ætur biti í húsinu annars þurfum við að fara að borða húsgögnin á heimilinu. Reyndar er bílskúrinn fullur af húsgögnum og drasli sem við erum ekkert að nota kanski er bara málið að borða draslið og losna þannig við það.

    It´s a dogs life
    Já það er ekki nóg að við mæðgurnar liggjum í pestinni til að bæta gráu ofan á svart tók músin hennar Ásdísar upp á þvi að deyja einhverntímann í fyrrinótt eða gær morgun. Blessuð sé minning hennar. Eins og það hafi nú ekki verið nógu slæmt þá bættis við að Leó fék magapest í nótt. Það þýddi nánast engan svefn fyrir mig og óskaplega skemtileg þrif á íbúðinni. Ræfils tuskan (Leó ekki tuskan í hendi mér) gekk um með hausinn hangandi á milli framfótanna í skömm. Hann veit nefnilega alveg að það má ekki gera nr 1 og hvað þá nr.2 innan dyra. Hann var greinilega alveg búin að gera sér það ljóst að hann yrði tekin ærlega á beinið fyrir verknaðinn. En þannig er nú bara mál með vexti að ég get bara ekki skammað hann fyrir þetta í fyrsta lagi þá er þetta algerlega óviðráðanlegt og í annan stað þá skammaðist hann sín svo mikið af sjálfsdáðum að það hefði verið grimmdarlegt að bæta á það. Þegar þrifunum var lokið mátti ég dragnast út með hann reglulega í alla nótt og ég get svo svarið fyrir að það gerði hitanum, höfuðverknum og kvefinu mínu ekkert gott.

    Nú eru bara 2 dagar í það að eldri dóttir mín nái þeim merka áfanga að verða 12ára. Þetta er fysti stóri áfanginn í lífinu. Jú sko við 12 ára aldur má maður nefnilega horfa á myndir merktar með gulu merki, nú verður ekki hægt að banna Ásdísi það lengur og hefur hún talið dagana af þessum sökum. Næsti áfangi er svo 14 ára eða fermingar árið, svo er það 16 ára til að mega horfa á rauðmerktar myndir, 17 ára bílprófið, 18 sjálfstæði og kostningaréttur, 20 áfengið. Mikið sakna ég nú þessara tíma sem maður hafði alltaf eithvert takmark til að hlakka til með hverjum afmælisdegi. Ég á að vísu tvennt eftir en það er 35 ára en þá má ég bjóða mig fram til forseta (as if eða glætan spætan á íslensku) og svo náttúrlega 67 eða eftirlauna aldurinn. Ég get nú ekki sagt að þessir áfangar veki með mér sömu tilhlökkun og 17 ára aldurinn og hvað þá tvítugs afmælið. Mér finnst að það ætti að finna upp fleiri girnileg réttindi sem maður öðlast alltaf reglulega út lífið. Ég er að vísu ekki með neinar góðar hugmyndir að réttindum fyrir fólk sem er komið yfir tvítugt, hugmyndir óskast !!

    þriðjudagur, febrúar 01, 2005

    Atshjú
    Við Anna erum heima með flensu :( Það skemtilega við pestarsamveru okkar Önnu þessa dagana er að ég uppgötvaði hvað barnið hefur gaman af því að teikna. Krotið hennar er nenfilega farið að taka á sig alvöru mynd. Hún teiknar og teiknar og teiknar þangað til lítið sést af blaðinu lengur og á báðar hliðar. Hún teiknar mömmu með Önnu í maganum, krakkana á leikskólanum og síðast en ekki síst hákarla með krullur. Mér finnast hákarlarnir með krullurnar standa alveg uppúr hvað varða skemmtanagildi. Hef aldrei áður séð hákarla með krullur og finnst hugmyndin alveg geggjuð. Það er líka alltaf gaman að taka eftrir því að börnin manns bæta við sig nýjum og nýjum hæfileikum.