föstudagur, febrúar 04, 2005

Ég er lítið lasið skrímsli

Ég er lítð lasið skrímsli
og mig langar ekkert út.
Hornin mín eru völt og veik
og mig vantar snýtuklút.

Skrímsli eru eins og krakkar
ósköp vesæl ef þau næla sér í kvef.
Hver er hræddur við skrímsli sem
er hóstandi og með stíflað nef.

Anna blessunin er bara hundlasin greyið, hún er með 39.5 stiga hita og ósköp lasin. Liggur að mestu fyrir og horfir á barnaefni, það er nú ekki hægt að saka hana um geðvonsku barnið. Hún tekur pestinni með mesta jafnaðargeði það sama er ekki hægt að segja um það þegar hún á að taka penecilinmixtúruna sína. Til að koma mixtúrinni í hana þarf slagsmál og megninu er frussað út aftur. Ég hef að vísu fulla samúð með þessu en ég man enn eftir ógeðslegu bleiku mixtúrunni sem ég fékk við blöðrubólgunni þegar ég var á svipuðum aldri. Ég var meira og minna á þessari ógeðs mixtúru á þessum árum. Ég man líka daginn sem ég fékk mixtúruna í síðasta sinn. Ég var að sækja flöskuna inn í ísskáp og hún rann úr höndum mér og niður á gólf (eitt þetta týpiska atriði þegar maður ætlar að hjálpa og það fer i vaskinn). Flaskan brotnaði og ljósbleikt innihaldið dreifðist um eldhúsið. Móðir mín var nú ekki ánægð með afrekið sem er kanski ekkert skrítið þetta var sykursull með ógeðslegri penecilin lykt í bland við einhverja sæta vemmilega lykt. Sullið var svo í ofanálag óhóflega klístrað og leiðinlegt í þrifum OJJJ. Mamma skeiðaði svo til læknis að fá nýja mixtúru en kom aftur með töflur í staðinn, mikið varð ég glöð. Ég hætti alveg að vera leið yfir þvi að hafa misst flöskuna og óskaði þess helst að ég hefði bara gert þetta fyrr. Mér dettur mixtúru ófétið í hug í hvert sinn sem ég þarf að troða svona mixtúru ógeði í börnin mín.

Engin ummæli: