fimmtudagur, apríl 24, 2008

Allt að verða vitlaust...

Ég ákvað að taka daginn snemma og fara að sækja um nýtt vegabréf þar sem mitt gamla rann út í fyrra. Ég var búin að sjá fyrir mér að það væri sniðugt að vera kominn snemma í þeirri von að það yrði lítið að gera og það gekk svona líka vel eftir það var bara einn á undan mér.
Nú er orðið talsvert auðvelt að sækja um vegabréf maður þarf bara að koma með sjálfan sig og pening eða debetkort,maður fær víst ekki vegabréf eða önnur skilríki út á krít.
Sýslumannsembættið sér núna um myndatökuna (ég fékk meira að segja 2 tilraunir því fyrri myndin var svo hræðileg ekki það að seinni myndin hafi verið nein snilld en jæja) svo þarf maður bara að gefa rafræna eiginhandaráritun og þá er málið afgreitt. Hér áður fyrr krafðist vegabréf ferðar á ljósmyndastofu og svo hellings pappírsvinnu þegar maður sótti um þetta er eiginlega kjánalega auðvelt núna.


Ég fór svo í nokkrar búðir og útréttingar í viðbót og þá áttaði ég mig á því að ég hefði gleymt gemsanum heima. Ég átti leið aftur heim hvort sem var og þegar ég kem inn er síminn nötrandi á borðinu hringjandi á fullu og í ofanálag sá ég eftir á að á símanum voru 10 missed calls. Gemsinn minn hringir nánast aldrei en ef ég dirfist að gleyma honum heima í 4-5 tíma þá verður barasta allt vitlaust :s

Ég var varla búin að klára símtalið þegar Ásdís kemur heim og segist hafa farið til skólahjúkrunarfræðingsins þar sem hún var orðin nánast raddlaus og "sjjitt illt í hálsinum" eins og hún orðaði það. Skólahjúkurnarfræðingnum leist ekki betur á barnið en svo að hún pantaði tíma hjá lækni svo ég mátti strauja með Ásdísi til læknis. Eftir að hafa skoðað Ásdísi frá hvirfli til ilja sem sendi hún okkur á Bráðamóttöku barna í blóðprufur og fínerí. Við vorum svo sendar heim þaðan og bíðum eftir niðurstöðum sem jafnvel koma ekki fyrr en á föstudag nema eitthvað "alvarlegt" finnist.

Ásdís greyið er sem sagt enn lasin ég fór með hana á læknavaktina á sunnudaginn þar sem hálsinn á henni er stokkbólgin, læknirinn þar tók streptokokkastrok sem reyndist neikvætt og eftir það vildi hann ekkert fyrir okkur gera og sagði að þetta þyrfti bara að jafna sig. Við foreldraómyndirnar vorum svo harðbrjósta að við sendum hana í skólann á þriðjudag þar sem hitinn var farinn að malla í stöðugum 5-6 kommum. Miðað við hvað skólahjúkkan og læknirinn á heilsugæslunni taka þetta alvarlega (öfugt við Læknavaktarlækninn) þá er ég nú með smá móral yfir því að hafa rekið krakka grísinn í skólann.
Þegar heim var komið var ég eiginlega búin á batteríinu og ætlaði að slaka á yfir fréttunum en þá tókst Önnu að dúndra höfðinu í stólpa á rólunum þar sem hún var að róla sér og kom inn hágrátandi með kúlu á hausnum. Ég var farin að sjá fyrir mér aðra ferð á spítala en sem betur fer reyndist þetta nú bara minniháttar kúla og mest að litla grís hafði aðallega brugðið við skellinn.

Ég verð nú að játa að ég er fegin að þessi dagur er búinn.

Meðan ég man Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn :)

Engin ummæli: