mánudagur, október 20, 2003

Jæja enn ein dásemdar helgin búin ég ætla sko rétt að vona að hér með fari þessari flensu að ljúka hjá okkur hér. Við Ásdís láum saman alla helgina með hita og annað skemmtilegt sem gerði það að verkum að ég fór ekki í vinnu um helgina. ARGH ég er orðin félagslega skert á þessari heimaveru. Ég er svo illa haldin að ég horfði á Bold and the Beutiful mér til ánægju í morgun. Það eitt sýnir glögglega hve sálarástand mitt er orðið lélegt.
Ásdís greyið er enn með hita og fer því ekki í skólann í dag. Anna er í verkfalli og harðneitar að vakna til að fara í leikskólann. Leó er útivistarskertur og er farinn að reyna að koma með tauminn sinn til að benda mér á að hann langi til að fara út. Ég er enn ekki í nokkru ástandi til að gera meira en rétt að skjótast með hann út undir vegg.
Einhvern vegin þarf ég svo að finna út úr því að troða tveimur aukavöktum á vökudeildinni inn í dagskrá vikunnar og fá tímasetningar fyrir síðustu 3 verknámsdagana mína sem eru á mánud. þriðjud og miðvikudag í næstu viku. Til þess þarf ég að ná tali af deildarstjóranum þar sem er álíka auðvelt og að ná tali af kónginum. Svo þarf ég víst líka að fara að finna út úr því að skrifa ritgerð um hjúkrun fyrirbura en á þeim tíma sem ég hef verið á Vöku hef ég nú ekki orðið mjög mikils vísari um það efni. Veit að það þarf að gefa og skipta á þeim á þriggjatíma fresti ásamt því að taka lífsmörk. Einnig er ég búin að læra það að steragjöf fyrir fæðingu fyrirbura er mjög mikilvæg og súrefnisnotkun getur valdið ýmiskonar vanda. Ég sé ekki alveg hvernig ég ætla að teygja þetta á 7-8 blaðsíður. Hmm.
Svo á Árni minn afmæli á morgun og hlakkar mikið til. Ég er enn að reyna að finna tíma fyrir afmælisveislu fyrir hann. Það er svoldið snúið þar sem það þarf víst að vera hægt að bjóða fólki inn í grenið (heimili mitt) en akkúrat eins og er er staðurinn yfirlýst alþjóðlegt hættusvæði og ekki þorandi að ganga þar um nema í skóm með stáltá, hjálm og eiturefnagrímu. Ætli sameinuðu þjóðirnar fáist til að senda rústabjörgunarlið til að moka út ???
Farin að hjúkra Lasarus og reyna að koma Letidýrinu á leikskólann þó seint sé.

Engin ummæli: