fimmtudagur, mars 25, 2004

Grein í DV í dag:

Guðjón hundabani skaut hund á færi í Garðabæ

Kolbrún Kristjánsdóttir horfði upp á hundinnn sinn skotinn til bana í gærmorgun. Maðurinn sem skaut hundinn er bóndi og segir árásir hunda á kindurnar sínar tíðar. Lögreglan gerði skotvopn upptæk á heimili bóndans og er með málið til rannsóknar. Fjölskyldan sem átti hundinn er í sjokki og segir fjölskyldufaðirinn málið "óhuggulegt".

"Það ríkir mikil sorg á heimilinu." segir Kolbrún Kristjánsdóttir. Hundurinn hennar, Max, var drepinn í gær. Atvikið átti sér stað þegar hún var með hundinn í morgungöngu úti á Bala; vinsælu útivistarsvæði á Álftanesinu. Max tók sprettinn yfir á jörð Guðjóns Jósepssonar, bónda í Pálshúsum, sem þaut út með riffil og skaut hundinn til bana. Stuttu seinna var lögreglan komin á vettvang og gerði skotvopn Guðjóns upptæk. Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglunni í Hafnarfirði.

"Það voru þrír hundar sem hlupu inn á túnið hjá bóndanum en aðeins tveir sneru aftur," segir Kolbrún. "Ég heyri skothvelli og hleyp af stað til að athuga hvað var að gerast." Kolbrún segist hafa séð bóndann stumrandi yfir einhverju á jörðinni. "Svo skaut hann einu lokaskoti og hljóp inn í hús."

Lögreglan kom fljótlega á staðinn. Kristján Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að skotvopn hafi verið gerð upptæk á heimili mannsins og að málið sé í rannsókn. "Meira get ég ekki sagt á þessari stundu."

Guðjón Jósepsson, sem skaut hundinn, segist drepa hunda vegna þess að þeir drepi kindurnar hans. "Það var ein kind drepin hjá mér í fyrradag og önnur stórslösuð," segir Guðjón. "Maður lætur sko ekki hunda myrða kindur fyrir augunum á sér ef maður getur gert eitthvað í því."

Varðandi rannsókn lögreglunnar segir Guðjón að þrjár byssur hafi verið teknar af honum. Aðspurður um hvernig byssu hann hafi notað um morguninn segir Guðjón ekki koma til greina að nota annað en riffla á svona hunda. "Ég skaut hann, hann lamaðist, þá skaut ég hann aftur og drap hann," segir Guðjón og bætir við: "Fólk verður að passa upp á hundana sína."

Mikill harmur ríkir hjá fjölskyldunni sem missti Max. Þegar DV hafði fyrst samband við Kolbrúnu svaraði sonur hennar grátandi í símann. Hann grét út af hundinum sem Kolbrún segir að hafi verið "einn af fjölskyldunni." Hjálmar Guðmundsson, eiginmaður Kolbrúnar, segir þetta mál hið óhuggulegasta. "Manni ber í raun skylda til að segja frá þessu; öðrum hundaeigendum til viðvörunar," segir Hjálmar. Síðdegis í gær safnaðist fjölskyldan saman úti á Bala, sem var síðasti staðurinn sem Max lék sér á og jarðsetti hundinn.

Aðspurður um hvernig fjölskyldan muni takast á við áfallið segir Heimir: "Ég held að það sé ekki hægt að ímynda sér hvernig það er að sjá mann standa úti á túni og aflífa heimilisdýrið; auðvitað erum við í sjokki."


simon@dv.is

Þessi grein birtist í Dagblaðinu í dag, 25. mars 2004. Bls. 6

Sjá nánar ásamt myndum í Dagblaðinu í dag.
Tekið af bestivinur.com

Engin ummæli: